Um verkefnið

Aðstandendur

Aðstandendur verkefnsins eru Northstack, Gallup og Tækniþróunarsjóður.

Northstack er upphafsaðili verkefnisins og sá um stjórn verkefnisins, gerð spurningalista og ritstjórn. Northstack kostaði verkefnið að hluta.

Gallup var vinnsluaðili rannsóknar, sá um gerð spurningalista, aðferðafræði og úrvinnslu gagna. Friðrik Björnsson sá um verkefnið fyrir hönd Gallup.

Tækniþróunarsjóður sendi út könnunina á umsækjendur síðustu 3 ára, og kostaði verkefnið að hluta. Tækniþróunarsjóður kom ekki að gerð spurninga eða efnistaka.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið styrkti verkefnið (með styrk til Northstack) um 850.000 krónur, en kom að öðru leiti ekki að verkefninu.

Markmið og aðferð

Verkefnið snerist um að búa til grunn að heildstæðri sýn á umhverfi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja. Markmiðið er að leggja grunn að gagnadrifnum greiningum á núverandi stöðu, og varpa þannig ljósi á möguleika og tækifæri íslenska umhverfisins til sóknar. Þegar talað er um umhverfi þá er vísað til samblands af almenningsáliti, fjármögnunarmöguleikum, stuðningsumhverfi hins opinbera, og rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Til að ná því markmiði var ákveðið að semja og senda út spurningakönnun á nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi. Alls voru svarendur beðnir að svara hluta af 49 spurningum, en svarendur fengu í nokkrum tilfellum mismunandi spurningar byggt á svörum við fyrri spurningum.

Spurningarnar snéru að viðhorfi til ýmissa hluta umhverfis nýsköpunarfyrirtækja, t.d. fjármögnunarumhverfi, opinberu stuðningsumhverfi, almenningsálits, framtíðarhorfa, framtíðarsýn fyrirtækjanna, aðgengi að mannauði, vitund um stuðningsverkefni hins opinbera og fleiri hluta.

Auk spurninga með fimm punkta kvarða (mjög jákvætt, frekar jákvætt, hvorki né, frekar neikvætt, mjög neikvætt), voru opnar spurningar þar sem svarendum gafst kostur á að skrifa inn svör. Í einhverjum tilfellum voru svör þeirra greind og safnað saman í flokka sem eru birt í niðurstöðunum.

Heildarúrtak var 753 fyrirtæki sem sótt höfðu um styrk hjá Tækniþróunarsjóði á tímabilinu 2016-2019. Af þeim 753 fengust svör frá 269 aðilum, eða 35.7%

Afhverju Nýsköpunarlandið.is?

Við völdum að birta gögnin hrá og án túlkunar hér á Nýsköpunarlandið.is, til að gefa umhverfinu og öllum þátttakendum þess aðgang, og reynum að lýsa bakgrunn, og fyrirvörum eins vandlega og við getum til að stuðla að betri greiningum þeirra sem hafa áhuga.

Gögn og greiningar byggðar á þeim eru mikilvæg fyrir uppbyggingu og þróun atvinnuvega, og sjáum við þessa könnun sem hluta af þeirri vegferð að eiga betri, upplýstari, og áhrifameiri umræðu um málefni nýsköpunar á Íslandi.

Úrtak

Markmið verkefnisins var að fá betri sýn á umhverfi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja. Stærsta úrlausnarefnið við undirbúning verkefnisins var að ákveða hvaða úrtak myndi best lýsa þeim hópi. Úr varð að úrtakið yrði umsækjendur í Tækniþróunarsjóð, síðust þrjú ár fyrir framkvæmd könnunarinnar. Ástæður þess að þetta úrtak var valið eru eftirfarandi.

  • Markmiðið var að kanna viðhorf nýsköpunarfyrirtækja, en mjög erfitt er að nálgast gagnasöfn um nýsköpunarfyrirtæki sem innihalda ekki umtalsverða skekkju.
    • Gögn úr fyrirtækjaskrá um nýstofnuð fyrirtæki á ákveðnu tímabili henta ekki, þar sem ómögulegt er að áætla hvort fyrirtæki sé nýsköpunarfyrirtæki eða ekki byggt á skráningargögnum.
    • Ekki er hægt að nota ÍSAT (íslenska atvinnugreinaflokkun) skráningu, þar sem nýsköpun er ekki atvinnugrein. Ýmsar atvinnugreinar innihalda oft nýsköpun, en innan þeirra geta leynst bæði nýsköpunarfyrirtæki og önnur fyrirtæki.
    • Ekki er hægt að nota lista yfir fjármögnuð fyrirtæki eða styrkþega, þar sem þá myndu niðurstöður vera litaðar af því að allir svarendur hefðu náð einhverri fjármögnun.
    • Ekki var talið æskilegt að hafa könnunina opna öllum, því þá myndi halli (e. bias) verða til út frá dreifingarmöguleikum aðstandenda könnunarinnar.
  • Þýðið “Umsækjendur í Tækniþróunarsjóð” var talið gott þýði vegna eftirfarandi
    • Þýðið var þokkalega stórt; á þremur árum voru 753 einstakar kennitölur sem sóttu um styrk
    • Þýðið var breitt, að því leytinu til að fyrirtæki úr mjög mörgum atvinnugreinum sækja um styrk í Tækniþróunarsjóð á einhverjum tímapunkti
    • Tækniþróunarsjóður er ætlaður fyrir nýsköpunar og tækniþróunarverkefni, sem leiðir til þess að allir umsækjendur eru – eða að lágmarki telja sig vera – í nýsköpun.
    • Líkur má leið að því að allflest nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi sæki á einhverjum tíma um styrk til Tækniþróunarsjóðs, þó að alls ekki öll þeirra fái styrk.

Fyrirvarar, lærdómur og næstu skref

Aðstandendur verkefnisins eru ánægðir með framkvæmd og útkomu verkefnisins, en þó skal hafa nokkra hluti í huga við túlkun og greiningu á gögnunum.

Fyrirvarar

  • Stærstur hluti svarenda var, þegar könnunin var framkvæmd, með færri en 10 starfsmenn, og hafði fengið minna en 4.5 milljónir í fjármagn.
  • Innskráning bakgrunnsupplýsinga var að mestu leyti í höndum svarenda, þannig ekki er hægt að fulltryggja samræmdan skilning og svörun á þeim.
  • Ekki öll svör eru birt, m.a. vegna mikils magns svara við opnum spurningum sem ekki gafst tími til að fullvinna, og einnig að einhverjar spurningar voru, eftir á að hyggja, ekki nægilega vel hannaðar til að gögnin væru eins góð og ætlunin var.

Lærdómur

  • Fyrir næstu útgáfu væri eftirsóknarvert að hafa ítarlegar og samræmdar bakgrunnsupplýsingar (t.d. úr ársreikningum, opinberum gögnum um styrki og fjármögnun, ofl.). Það myndi efla gæði niðurstaðna og auka við möguleika á dýpri greiningum.
  • Fyrir næstu útgáfu væri æskilegt að finna leiðir til að eldri og stærri nýsköpunarfyrirtæki – sem hafa ekki sótt um styrk á síðustu þremur árum, en eru engu að síður virk í umhverfinu – myndu vera hluti af þýðinu.
  • Fyrir næstu útgáfu væri æskilegt að endurskoða nokkrar spurningar til að tryggja samræmdan skilning.

Næstu skref

  • Byggt á viðbrögðum við þessari greiningu, verður leitast eftir því að endurtaka greininguna árið 2021, til að sjá þróun í svörun og halda gagnasafninu við.

Notkun gagna

Gögnin eru eign Tækniþróunarsjóðs og Northstack en öllum er frjálst að vísa í þau og nota í sínum verkefnum, svo lengi sem markmiðið er ekki að hagnast fjárhagslega á notkuninni. Vinsamlega vísið í vefinn og getið heimilda (Gallup, Northstack, Tækniþróunarsjóður) um gögnin þegar þau eru notuð.

Frekari spurningum um gögnin og könnunina svarar Kristinn Árni L. Hróbjartsson, stofnandi Northstack, kristinn@northstack.is.