Umhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi

Umhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi er samstarfsverkefni Northstack, Gallup og Tækniþróunarsjóðs. Markmið verkefnisins er að kortleggja viðhorf forsvarsfólks nýsköpunarfyrirtækja til umhverfis nýsköpunar á Íslandi. Á þessari síðu eru upplýsingar um verkefnið, tilurð þess og markmið, aðstandendur, og niðurstöður. Verkefnið var styrkt af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Við völdum að birta gögnin hrá og án túlkunar hér á Nýsköpunarlandið.is, til að gefa umhverfinu og öllum þátttakendum þess aðgang, og lýsum bakgrunni og fyrirvörum eins vandlega og við getum í ítarlegri umfjöllun um verkefnið, til að stuðla að betri greiningum meðal þeirra sem hafa áhuga.

Fyrirvarar

Mikilvægt er að hafa í huga að könnunin er einmitt það, könnun á skoðun og tilfinningu þeirra sem reka fyrirtæki og hafa sótt um styrk í Tækniþróunarsjóð á tímabilinu 2017-2019. Skoðið ítarlegri umfjöllun um verkefnið fyrir frekari upplýsingar.

Frekari upplýsingar

Frekari upplýsingar veitir Kristinn Árni L. Hróbjartsson, stofnandi Northstack – kristinn@northstack.is

Niðurstöður

Hér á eftir fylgja helstu niðurstöður könnunarinnar. Athugið að ekki eru niðurstöður við öllum spurningum birtar. Ástæður þess má finna í “Um verkefnið – Lærdómur og næstu skref.”

Helstu niðurstöður

Viðhorf til nýsköpunar er almennt jákvætt:

  • Þátttakendur voru sjálfir jákvæðir gagnvart framtíð nýsköpunar á Íslandi
  • Þátttakendur töldu að almenningur á Íslandi hefði almennt gott viðhorf gagnvart nýsköpun

Séríslenskt er óvinsælt:

  • 73.5% töldu það að hafa séríslenskan gjaldmiðil hafa mjög eða frekar neikvæð á hrif á rekstur síns fyrirtækis.

Stofnun fyrirtækja er einföld, en umhverfið má bæta fyrir alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki:

  • Tæplega 80% voru sammála því að það væri auðvelt að stofna fyrirtæki á Íslandi
  • Á hinn bóginn, var meirihlutinn ósammála því að Ísland væri góður staður fyrir alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki eða fyrirtæki í örum vexti.

Aðgengi að mannauði misgott:

  • Tæplega 40% töldu gott eða mjög gott aðgengi að innlendum mannauði með rétta reynslu og þekkingu.
  • Rúmlega 60% töldu gott eða mjög gott aðgengi að erlendum mannauði með rétta reynslu og þekkingu.
  • Erlendir sérfræðingar störfuðu hjá 40.7% fyrirtækja.

Vitund um ívilnanir er misgóð:

  • 51.2% vissu ekki að erlendir sérfræðingar sem flytja til Íslands eigi möguleika á skattaafslætti
  • 22.8% vissu ekki af skattafrádrætti vegna kostnaðar tengdum rannsóknum og þróun

Fjármögnunarkerfið stendur fólki fyrir þrifum:

  • 65.6% telja það erfitt eða mjög erfitt að fjármagna fyrirtækið með aðkomu innlendra fjárfesta
    • Meðal helstu ástæðna eru talin upp lítið framboð á fjárfestum, óþolinmæði/áhættufælni fjármagns, og erfitt aðgengi að fjárfestum
  • 58.8% telja það erfitt eða mjög erfitt að fjármagna fyrirtækið með aðkomu erlendra fjárfesta.
    • Meðal helstu ástæðna eru talin upp gjaldmiðillinn, og fjarlægð, skortur á tengslum og erfitt aðgengi.
  • 61% svarenda telja þá bankaþjónustu sem í boði er á Íslandi henta illa eða mjög illa fyrir nýsköpunarfyrirtæki.

Mismunandi framtíðarsýn:

  • 69.9% svarenda hafa þá framtíðarsýn að reka fyrirtækið til frambúðar með hagnaði, en rétt um 30% sjá fyrir sér að selja eða skrá á markað.
  • 60% svarenda eru annaðhvort nú þegar starfandi á erlendum mörkuðum eða stefna þangað á næstu 12 mánuðum. 7.4% svarenda sjá ekki fyrir sér að herja á erlenda markaði.

Niðurstöður í heild

Einnig má nálgast gögnin á Excel formi hér fyrir neðan:

Vinsamlega getið heimilda.